Ísland mætir Hollandi í Almere í kvöld og hefst þá undankeppni HM karla í körfuknattleik en lokakeppnin verður haldin árið 2023 í Japan, Indónesíu og Filippseyjum.
Leikurinn gæti reynst mikilvægur en Rússland og Ítalía eru fyrir fram talin sterkari lið en þessi fjögur eru saman í B-riðli. Þegar upp verður staðið munu þrjú þessara liða fara áfram á næsta stig undankeppninnar. Þótt erfitt sé að spá í spilin fyrir fram þá gætu viðureignir Íslendinga og Hollendinga skipt miklu máli.
Lið Hollands vann sig inn í lokakeppni EM 2021 en lokakeppninni var frestað vegna heimsfaraldursins og mun fara fram árið 2022. Með það sem viðmið er hægt að segja að hollenska liðið standi framar um þessar mundir. Ísland komst á EM 2015 og 2017 sem kunnugt er. Nú hefur fyrirkomulaginu verið breytt þannig að EM fer fram á fjögurra ára fresti. Holland komst ekki inn á EM 2017 en var á EM 2015 og þá stóð liðið sig mjög vel. Þá var liðið á EM í fyrsta skipti frá 1989.
Holland er með ítalskan landsliðsþjálfara, Maurizio Buscaglia. Hann tók við hollenska liðinu árið 2019 en stýrir einnig Hapoel Holon í Ísrael. Hefur hann þjálfað frá árinu 2015, mest á Ítalíu.
Átta leikmenn í hollenska hópnum spila í sameiginlegri deild bestu liða Hollands og Belgíu en í þeirri deild spilar Elvar Már Friðriksson. Þrír í hollenska liðinu leika á Spáni og eru allir hjá liðum í b-deildinni eins og Ægir Þór Steinarsson. Einn þeirra leikur með Girona, liðinu sem Kári Jónsson spilaði með í fyrra.
Einn Hollendingurinn spilar í Póllandi, annar í Portúgal og einn með Fraport Skyliners frá Frankfurt í Þýskalandi. Liðinu sem Jón Axel Guðmundsson lék með í fyrra. Sá heitir Matt Haarms og er 221 cm á hæð. Hefur hann því nokkra sentimetra á Tryggva Snæ Hlinason og Ragnar Nathanaelsson. Sé Haarms sterkur leikmaður ætti Tryggvi að hafa nóg að gera í leiknum. Haarms er 24 ára og lék með Purdue og BYU í háskólakörfuboltanum.
Segja má að enginn í hollenska hópnum spili með liði sem er jafn hátt skrifað og Valencia sem Martin Hermannsson leikur með. Fljótt á litið virðist enginn Hollendingur spila í Euroleague á þessu tímabili. Þar er heldur enginn Íslendingur í vetur og fyrir vikið getur Martin verið með landsliðinu.
Umfjöllunina má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.