Frábær útisigur gegn Hollandi

Martin Hermannsson leitar að glufu í vörn Hollendinga í kvöld.
Martin Hermannsson leitar að glufu í vörn Hollendinga í kvöld. Ljósmynd/FIBA

Karlalandsliðið í körfuknattleik hóf undankeppni HM 2023 eins og best verður á kosið og vann Holland 79:77 í H-riðli í Almere í Hollandi í kvöld. 

Rússar unnu Ítali fyrr í dag 92:78. Eru Rússland og Ísland því með 2 stig og munu mætast í Rússlandi á mánudaginn. 

Leikurinn var mjög jafn í fyrri hálfleik en Holland náði þá mest fimm stiga forskoti. Ísland var yfir 44:41 að loknum fyrri hálfleik. Frábær leikkafli í byrjun síðari hálfleiks kom Íslandi í góða stöðu. Ísland náði þá mest þrettán stiga forskoti. Forskotið var þó helst til fljótt að fara og Hollendingar minnkuðu muninn niður í tvö stig. 

Í fjórða leikhluta náði Holland að jafna og spennan var mikil. Á 39. mínútu má segja að vendipunktur hafi orðið í leiknum. Jón Axel Guðmundsson setti þá niður þrist af löngu færi og Martin bætti annarri við á glæsilegan hátt þegar skotklukkan var að renna út. Staðan var þá 77:68 fyrir Ísland. 

Kristófer Acox sækir að körfu Hollendinga. Eins og sést eru …
Kristófer Acox sækir að körfu Hollendinga. Eins og sést eru áhorfendur ekki velkomnir vegna sóttvarnareglna. Ljósmynd/FIBA

Lokamínútan gekk ekki sérstaklega vel fyrir sig og Ísland tapaði boltanum oftar en einu sinni. Það kom þó ekki að sök og spennan varð sem betur fer ekki of mikil á lokamínútunni. Holland skoraði þriggja stiga körfu um leið og lokaflautið gall. 

Martin Hermannsson var langstigahæstur með 27 stig og var mikilvægur í síðasta leikhlutanum. Vert er að geta þess að Martin setti niður öll átta vítaskotin sín í leiknum og slíkt er afar mikilvægt í leik sem þessum.

Martin tapaði boltanum hins vegar sjö sinnum sem er ólíkt honum og alls tapaði Ísland boltanum tuttugu og fimm sinnum. Voru ýmsar ástæður fyrir því en dómarar leiksins voru til dæmis miklir áhugamenn um hversu mörg skref leikmenn taka. Dæmdu þeir skref býsna oft í leiknum á bæði liðin. Leikurinn var mjög hraður og ef til vill skýrir það að einhverju leyti hversu oft sóknirnar runnu út í sandinn. Menn tóku stundum áhættu þegar þeir vildu keyra hratt á Hollendingana. 

Craig Pedersen landsliðsþjálfari leggur línurnar.
Craig Pedersen landsliðsþjálfari leggur línurnar. Ljósmynd/FIBA

Tryggvi Snær Hlinason tók átta fráköst og varði fjögur skot. Tryggvi átti erfitt uppdráttar í sókninni en var geysilega mikilvægur í vörninni. Ofan á frákastatölurnar má bæta nokkrum tilfellum þar sem honum tekist að blaka boltanum á samherja eftir misheppnuð skot. 

Elvar Már Friðriksson skoraði 16 stig. Hann var heitur í fyrri hálfleik en kólnaði í síðari hálfleik. Ægir Þór skoraði 15 stig og gaf sex stoðsendingar. 

Elvar Már Friðriksson skorar í fyrri hálfleik.
Elvar Már Friðriksson skorar í fyrri hálfleik. Ljósmynd/FIBA

Jón Axel skoraði 11 stig, Kristófer Acox 6 stig og Tryggvi 4 stig. Ólafur Ólafsson og Kári Jónsson léku einnig töluvert í leiknum þótt þeir hafi ekki skorað. Ólafur tók 4 fráköst og Kári 2 fráköst. Þórir Guðmundur, Kristinn, Ragnar og Hilmar Smári komu ekki við sögu. 

Lið Íslands: Elvar Már Friðriksson, Hilmar Smári Henningsson, Jón Axel Guðmundsson, Kári Jónsson, Kristinn Pálsson, Kristófer Acox, Martin Hermannsson, Ólafur Ólafsson, Ragnar Ágúst Nathanaelsson, Tryggvi Snær Hlinason, Þórir Guðmundur Þorbjarnarson, Ægir Þór Steinarsson.

Íslenski hópurinn stillir sér upp í Hollandi í dag.
Íslenski hópurinn stillir sér upp í Hollandi í dag. Ljósmynd/FIBA
Holland 77:79 Ísland opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert