LA Lakers þurfti að sætta sig við enn eitt tapið í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt. Að þessu sinni tapaði liðið fyrir nágrönnum sínum í Sacramento Kings eftir þríframlengdan leik.
Staðan að loknum fjórða leikhluta var 100:100 eftir að þriggja stiga skot LeBron James á lokasekúndunni geigaði.
Í fyrstu framlengingunni virtist Lakers ætla að sigla sigri í höfn og komst í 103:110 en ávallt fann Sacramento leiðir til að jafna að nýju.
Að lokinni annarri framlengingu var staðan 124:124.
Í þriðju framlengingunni reyndist Sacramento hlutskarpara að lokum og vann nauman 141:137-sigur eftir vægast sagt spennandi leik.
James og Russell Westbrook voru stigahæstir Lakers-manna. James náði tvöfaldri tvennu þegar hann skoraði 30 stig og gaf 11 stoðsendingar.
Westbrook náði þrefaldri tvennu er hann skoraði 29 stig, tók tíu fráköst og gaf 11 stoðsendingar.
Stigahæstur Sacramento-manna og í leiknum var DeAaron Fox með 34 stig.
Lakers hefur nú tapað 11 af fyrsta 21 leik sínum á tímabilinu.
Alls fóru 12 leikir fram í NBA-deildinni í nótt.
Öll úrslit næturinnar:
LA Lakers - Sacramento 137:141 (3x frl.)
LA Clippers - Detroit 107:96
Charlotte - Minnesota 133:115
New York - Phoenix 97:118
Orlando - Chicago 88:123
Indiana - Toronto 114:97
Memphis - Atlanta 100:132
Oklahoma - Washington 99:101
San Antonio - Boston 96:88
Denver - Milwaukee 109:120
Utah - New Orleans 97:98
Golden State - Portland 118:103