„Landslið Íslands eiga ekki heimili á Íslandi“

Hannes S. Jónsson (fyrir miðju).
Hannes S. Jónsson (fyrir miðju). mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Hannes S. Jónsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands, KKÍ, vakti athygli á bágborinni stöðu landsliða Íslands þegar kemur að aðstöðumálum í innanhúsíþróttum.

„Erum a leið til Rússlands en ættum að vera á leiðinni heim til að taka á móti Rússum. Landslið Íslands eiga ekki heimili á Íslandi, bíðum eftir að sjá nýjan stjórnarsáttmála.

Er hægt að treysta orðum stjórnmálamanna? Pínu spennandi viðurkenni það,“ skrifaði Hannes á twitteraðgangi sínum í morgun.

Líkt og hann bendir á átti annar leikur íslenska karlalandsliðsins í körfuknattleik í undankeppni fyrir HM 2023 að fara fram hér á landi en þar sem Laugardalshöll, sem var þegar á undanþágu hjá Alþjóðakörfuknattleikssambandinu, FIBA, er ónothæf var ekki hægt að spila hann hér á landi.

Rússar féllust á að víxla á heima- og útileikjum liðanna og því er íslenska liðið á leið til Rússlands eftir frækinn 79:77-sigur gegn Hollandi í Almere þar í landi í fyrstu umferð H-riðils undankeppni HM 2023 í gærkvöldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert