Kristófer Acox leysti sitt hluverk vel af hendi gegn Hollandi í gærkvöldi þegar Ísland vann 79:77 í fyrsta leik sínum í undankeppni HM 2023 í körfuknattleik.
„Þetta var fínt. Við fórum í þennan leik vitandi að við værum í bullandi séns að ná í tvö stig. Mér fannst við byrja af krafti og náðum að halda út allan leikinn. Mér fannst við vera töluvert betri á heildina litið. Sigurinn hefði getað verið stærri og við lærum bara af því en við tökum stigin sáttir.“
Íslenska liðið virtist vera vel undirbúið og leikáætlunin gekk upp. „Þjálfarateymið gerði vel í því að setja upp góða áætlun og við fylgdum því. Við útfærðum það nokkuð vel þótt við höfum ekki fengið allt of mikinn tíma til að undirbúa okkur. Við erum allir svo góðir vinir að við smellum einhvern veginn saman inni á vellinum og viljum spila saman. Það hjálpaði mikið til,“ sagði Kristófer og hann sagði vinnusemina hafa ráðið úrslitum.
„Orkan var mikil og mér fannst vörnin örugg á heildina litið. Við töpuðum boltanum nokkuð oft í seinni hálfeik og vorum svolítið óheppnir þar. Það skiluðu allir sínu og við fengum náttúrlega risakörfur frá Jóni Axel og Martin sem þannig séð kláruðu dæmið. Þegar allir leggja í púkkið þá er erfitt að eiga við okkur. Sama hvaða land við erum að spila við.“
Kristófer þurfti að leggja mikið á sig í vörninni. Hann þurfti að eiga við hávaxnari menn og það átti við um fleiri í íslenska liðinu. Þegar Tryggvi Snær Hlinason var hvíldur þá lék Kristófer stundum sem miðherji þótt hann sé fyrst og fremst framherji.
„Já maður er ekki vanur því að spila á móti svona háum mönnum í íslensku deildinni en maður hefur stundum gert það með landsliðinu. Þegar við erum ekki með hávöxnu mennina inn á þá getum við kannski hlaupið hraðar en andstæðingarnir. Þá náum við stundum að refsa með því að hlaupa í bakið á þeim ef þeir eru lengi að skila sér til baka. En við getum þá líka lent í basli í vörninni ef ég er sá hávaxnasti sem er inn á og þarf að dekka þessa gæja sem eru 2,20 metrar. Það er gott að geta verið með Tryggva sem getur haldið þeim niðri.
En mér fannst okkur takast ágætlega að halda Hollendingum í einu skoti í sókn með því að frákasta vel. Menn voru duglegir að berjast um boltann þegar þeir komu ferskir inn á. Það hjálpaði gríðarlega við að ná í tvö stig í kvöld þótt við værum oft lágvaxnari menn. Þegar Tryggvi var inn á þá gat hann verið í kringum körfuna og náð fráköstum. Þegar hann var út af þá voru menn duglegir að slá í boltann frá andstæðingunum þegar skotin misheppnuðust og þá eru menn eins og Elvar og Ægir rosalega snöggir að komast að boltanum. Við finnum leiðir til að láta þetta virka.“
Hversu langt er síðan Kristófer spilaði landsleik með Martin Hermannssyni? Oft hefur annar hvor þeirra verið fjarverandi á síðustu árum.
„Ég held að það hafi gerst síðast árið 2018. Mögulega 2019. Við áttum von á að hann myndi vera með í leikjunum í ágúst en það breyttist á síðustu stundu. Það er náttúrlega frábært að fylgjast með honum og fá að vera með honum úti á gólfinu,“ sagði Kristófer Acox í samtali við mbl.is.