Skallagrímur úr Borgarnesi hefur dregið kvennalið sitt í körfuknattleik úr keppni í úrvalsdeild kvenna, Subway-deildinni.
Lið Skallagríms hefur tapað öllum ellefu leikjum sínum í deildinni í vetur og félagið sagði þjálfaranum Goran Miljevic upp störfum ekki alls fyrir löngu og réð Nebosja Knezevic í staðinn.
Þetta tilkynnti stjórn körfuknattleiksdeildar félagsins á samfélagsmiðlum í kvöld. Í yfirlýsingunni segir:
Ágætu stuðningsmenn. Stjórn körfuknattleiksdeildar Skallagríms hefur tekið þá ákvörðun að draga kvennalið Skallagríms úr keppni í Subway deildinni. Yfirstandandi tímabil hefur einkennst af erfiðleikum við mönnun á liðinu og ófyrirséðum breytingum. Jafnframt hefur ekki tekist að manna að fullu meistaraflokksráð og stjórn deildarinnar sem er forsenda fyrir framgangi starfseminnar. Markmið körfuknattleiksdeildarinnar verður eftir sem áður að vinna að því að efla meistaraflokka félagsins til framtíðar og byggist það á góðu yngri flokka starfi. Unnið verður að því á næstu mánuðum að efla innra starf deildarinnar, hlúa að og bæta starf yngri flokka enn betur auk þess að styðja við meistaraflokk karla og stefna á þátttöku kvennaliðs á næsta tímabili. Sú ákvörðun að draga kvennaliðið úr keppni er þungbær, en stjórn telur af ýmsum ástæðum sem ekki verða raktar frekar nauðsynlegt grípa til þessara ráðstafana með hag klúbbsins að leiðarljósi. Stjórn vill þakka leikmönnum kvennaliðsins og öðrum sem hafa haft aðkomu að því starfi í vetur fyrir vel unnin störf.