Slóveninn Luka Doncic hjá Dallas Mavericks virðist ekki taka illa þeirri gagnrýni sem beinist að líkamlegu ásigkomulagi hans.
Af og til hafa bandarískir fjölmiðlamenn sett fram skoðanir sínar um að Doncic geti verið sterkari og snarpari en hann er. Allt frá því hann kom inn í NBA-deildina. Á þessu keppnistímabili hefur umræðan aftur skotið upp kollinum og hafa nokkrir fjölmiðlamenn verið gagnrýnir í garð Doncic vegna þessa og benda á að hann sé þyngri á sér en í fyrra.
Doncic hefur þó ekki átt í neinum vandræðum með að sýna snilli sína í NBA og í vetur er hann til að mynda með um 26 stig að meðaltali í leik, um 8 fráköst og 8,5 stoðsendingar að jafnaði. Hann tekur þó gagnrýninni ekki illa og segir að um þessar mundir hafi það áhrif að hann náði ekki hefðbundnu undirbúningstímabili með Dallas Mavericks. Hann eyddi drjúgum hluta af sumrinu með slóvenska landsliðinu vegna Ólympíuleikanna og fékk gott frí eftir leikana í Japan. Hann byggði sig því ekki upp fyrir veturinn í langan tíma.
„Fólk mun tala um þetta. Ég átta mig á því að ég þarf að gera betur. Þetta var langt sumar hjá mér. Ég fór á Ólympíuleikana og fékk þriggja vikna frí eftir það. Þá reyndi ég að slaka á en kannski slakaði ég of mikið á. Ég þarf bara að komast aftur á fulla ferð,“ sagði Doncic á blaðamannafundi eftir tap Dallas gegn Brooklyn Nets.
Doncic hefur síðustu vikurnar verið tæpur vegna ökklameiðsla og ekki leikið alla leiki Dallas.