Þrettándi ósigurinn hjá Lakers

Desmond Bane var stigahæstur hjá Memphis Grizzlies í nótt og …
Desmond Bane var stigahæstur hjá Memphis Grizzlies í nótt og reynir her að fara framhjá Anthony Davis hjá Lakers. AFP

Enn gengur ekkert hjá Los Angeles Lakers í NBA-deildinni í körfuknattleik og í nótt mátti liðið sætta sig við ósigur gegn Memphis Grizzlies á útivelli.

Memphis vann leikinn 108:95 og ekki dugði fyrir Lakers að LeBron James væri með þrefalda tvennu, 20 stig, 11 stoðsendingar og 10 fráköst. Desmond Bane skoraði 23 stig fyrir Memphis. Lakers hefur nú tapað helmingi leikja sinna á tímabilinu, þrettán af 26.

Rudy Gobert tók 21 frákast fyrir Utah Jazz og skoraði auk þess 17 stig þegar liðið vann öruggan útisigur á Philadelphia 76ers, 118:96. Joel Embiid skoraði 19 stig fyrir 76ers.

San Antonio Spurs lagði Denver Nuggets að velli, 123:111, í Texas þar sem Derrick White var atkvæðamestur með 23 stig. Nikola Jokic var með þrefalda tvennu fyrir Denver, 22  stig, 13 fráköst og 10 stoðsendingar. Þetta var aðeins níundi sigur San Antonio í fyrstu 24 leikjum tímabilsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert