Stórstjörnurnar fóru á kostum

Giannis Antetokounmpo fór á kostum í nótt.
Giannis Antetokounmpo fór á kostum í nótt. AFP

Þrjár af skærustu stjörnum NBA-deildarinnar í körfubolta áttu stóran þátt í sigri sinna liða í deildinni í nótt.

Gríska undrið Giannis Antetokounmpo lék manna best en hann skoraði 41 stig og tók 17 fráköst fyrir Milwaukee Bucks í 123:114-sigri á Houston Rockets á útivelli. Milwaukee er í þriðja sæti Austurdeildarinnar með 17 sigra og 10 töp.

Brooklyn Nets er efst í Austurdeildinni með 18 sigra og 8 töp eftir 113:105-útisigur á Atlanta Hawks. Kevin Durant skoraði 31 stig fyrir Brooklyn og James Harden gerði 20 og gaf 11 stoðsendingar.

Þá skoraði LeBron James 33 stig fyrir Lakers sem vann 116:95-útisigur á Oklahoma City Thunder. Lakers hefur ekki komist almennilega af stað á leiktíðinni en liðið er með 14 sigra og 13 töp í 6. sæti Vesturdeildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert