Brooklyn Nets var án átta leikmanna og Orlando Magic án níu leikmanna vegna meiðsla og kórónuveirusmita þegar liðin mættust í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.
Fjarvera stórstjarna á við Kevin Durant og James Harden virtist koma frekar niður á Brooklyn þar sem Orlando hafði að lokum 100:93 sigur.
Ástralinn Patty Mills lék vel fyrir heimamenn í Brooklyn og skoraði 23 stig, auk þess sem David Duke Jr. var með tvöfalda tvennu er hann skoraði 18 stig og tók 14 fráköst.
Robin Lopez var stigahæstur Orlando-manna og náði tvöfaldri tvennu með því að skora 20 stig og taka tíu fráköst.
Kemba Walker sneri þá aftur í lið New York Knicks gegn sínum gömlu félögum í Boston Celtics eftir að hafa verið utan hóps undanfarna tvo mánuði.
Lék hann vel og skoraði 29 stig en það dugði ekki til því Boston vann að lokum 114:107 sigur.
Stigahæstur í leiknum var Evan Fournier hjá New York með 32 stig.
Stigahæstir Boston-manna voru Jayson Tatum með 25 stig og Jaylen Brown með 23 stig.
Alls fóru sex leikir fram í NBA-deildinni í nótt.
Öll úrslit næturinnar:
Brooklyn – Orlando 93:100
Boston – New York 114:107
Detroit – Houston 107:116
Toronto – Golden State 119:100
Oklahoma City – LA Clippers 104:103
Milwaukee – Cleveland 90:119
Utah – Washington 103:109