Stephen Curry fór fyrir Golden State Warriors þegar liðið bar sigurorð af Phoenix Suns í viðureign tveggja bestu liðanna á tímabilinu í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.
Curry skoraði 33 stig og var stigahæstur allra í leiknum þegar Golden State vann 116:107-sigur.
Á löngum og glæstum ferli í NBA-deildinni hafði Curry aldrei skorað yfir 20 stig á jóladag og því um langbestu frammistöðu hans um jól að ræða. Hann varð á dögunum methafi NBA í þriggja stiga körfum þegar hann fór fram úr Ray Allen og er nú einni slíkri frá því að skora 3.000 á ferlinum. Curry skoraði fimm í nótt og er kominn með 2.999.
Stigahæstur í liði Phoenix var reynsluboltinn Chris Paul með 21 stig.
Nú heftur Golden State unnið 27 af fyrstu 33 leikjum sínum og Phoenix 26 af fyrstu 32 leikjum sínum.
Skammt undan er svo Utah Jazz, sem vann sterkan 120:116-sigur á Dallas Mavericks í nótt.
Donovan Mitchell var stigahæstur Utah-manna með 33 stig og þeir Kristaps Porzingis og Jalen Brunson skoruðu báðir 27 stig fyrir Dallas.
Utah hefur unnið 23 sigra í 32 leikjum.
Brooklyn Nets kemur næst á eftir Utah með 22 sigra í 31 leik og jók enn á þjáningar LA Lakers í nótt.
Brooklyn hafði betur, 122:115, þar sem stórleikur LeBrons James dugði ekki til.
James skoraði 39 stig og tók níu fráköst og var stigahæstur allra í leiknum.
James Harden fór hins vegar fyrir Brooklyn og náði þrefaldri tvennu er hann skoraði 36 stig, tók tíu fráköst og gaf tíu stoðsendingar.
Skammt undan hjá Brooklyn var Ástralinn Patty Mills með 34 stig og sjö stoðsendingar.
Lakers hefur nú tapað fimm leikjum í röð.