Langskotin í genunum hjá Curry

Stephen Curry hefur leikið allan sinn feril með Golden State …
Stephen Curry hefur leikið allan sinn feril með Golden State Warriors og hann er orðinn mesta þriggja stiga skytta sögunnar í NBA. AFP

Galdramaðurinn Stephen Curry er orðinn iðnastur allra við að koma boltanum ofan í körfuna frá þriggja stiga línunni í sögu NBA-deildarinnar í körfuknattleik. Eða fyrir utan hana öllu heldur.

Í leiknum gegn New York City um miðjan mánuðinn sló Curry met Ray Allen yfir flestar þriggja stiga körfur í sögu deildarinnar. Allen setti niður 2.973 þriggja stiga skot í NBA og var langefstur á listanum þegar hann lagði skóna á hilluna. Reggie Miller er þriðji á listanum með 2.560 en Curry hefur greint frá því að Miller hafi verið í uppáhaldi í uppvextinum.

Alla tíð með Golden State

Stephen Curry er 33 ára gamall og hefur ávallt leikið með Golden State Warriors frá því hann kom inn í deildina árið 2009. Þess má til gamans geta að Curry var valinn sjöundi í nýliðavalinu árið 2009 og þeir sem gátu valið á undan Golden State hafa líklega séð eftir sinni ákvörðun. Golden State hefur jú þrívegis orðið NBA-meistari eftir að Curry gekk í raðir félagsins og hann hefur tvívegis verið valinn besti leikmaður deildarinnar.

Athyglisvert er að Curry spólaði fram úr Ray Allen og á bak við það eru mun færri leikir. Allen var í deildinni frá 1996-2014 og spilaði 1.300 leiki slétta í NBA. Curry hefur á tólf árum leikið innan við 800 leiki í NBA. Hittni hans í þriggja stiga skotum á NBA-ferlinum er 43%.

Faðirinn átti fínan feril

Ekki verður annað sagt en að Curry-fjölskyldan sé mikil körfuboltafjölskylda. Ekki er heiglum að ná svo langt í íþróttinni að komast að hjá NBA-liði. Þrír í nánasta hring Stephens Curry hafa engu að síður náð því og allir átt langan feril í deildinni. Dell Curry sem lék í deildinni í sextán ár frá 1986-2002 er faðir Stephens. Dell var sjálfur góð skytta þótt frammistaða hans fölni í samanburði við afrek Stephens. Flestir kannast við Dell Curry frá því hann lék með skemmtilegu liði Charlotte Hornets á tíunda áratugnum ásamt Larry Johnson, Alonzo Mourning, Kendall Gill og Muggsy litla Bogues.

Þeir sem fylgjast ekki grannt með NBA-deildinni vita ef til vill ekki að Dell Curry á annan son í deildinni. Er það Seth Curry sem er 31 árs og hefur verið í deildinni frá 2013. Seth hefur skorað um 11 stig að meðaltali í leik á ferlinum í NBA en hann nýtur sín sérstaklega vel í vetur hjá sterku liði Philadelphia 76ers. Skorar hann nú tæp 16 stig að jafnaði í leik. Yngri systir þeirra, Sydel, fór aðra leið og spilaði blak í NCAA með Elon-háskólanum.

Umfjöllunina má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert