Lið LA Clippers verulega laskað

Paul George verður í þessu hlutverki næstu vikurnar.
Paul George verður í þessu hlutverki næstu vikurnar. AFP

Los Angeles Clippers getur ekki nýtt krafta Pauls George í NBA-deildinni í körfuknattleik á næstunni en hann verður á sjúkralistanum næstu vikurnar.

George glímir við meiðsli í olnboga þar sem liðband er skaddað. Ekki er víst að hann leiki aftur með Clippers fyrr en í febrúar. Áður hafði George misst af fimm leikjum vegna þessara sömu meiðsla en reyndi í millitíðinni að snúa aftur á völlinn.

George hefur átt auðvelt með að finna leiðina að körfunni í NBA í vetur og hefur skorað rétt tæp 25 stig að meðaltali fyrir Clippers.

Útlitið er ekki gott fyrir Clippers í janúar því liðið er einnig án Kawhis Leonards sem ekkert hefur leikið í vetur en hann fór í aðgerð í júlí. Ekki hefur verið gefin út tímasetning varðandi hugsanlega endurkomu hjá Leonard.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert