Grindvíkingar áttu frábæran endasprett í kvöld þegar þeir sneru blaðinu við og sigruðu Íslandsmeistara Þórs á útivelli í Þorlákshöfn í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, 95:91.
Grindvíkingar styrktu þar með stöðu sína í þriðja sætinu og eru með 14 stig. Þór er áfram með 16 stig í öðru sæti en Keflvíkingar standa best að vígi með 18 stig á toppnum.
Grindvíkingar voru yfir eftir fyrsta leikhlutann í kvöld, 23:19, en Þórsarar sneru því við í öðrum leikhluta og voru með forystu í hálfleik, 45:39. Forskot Íslandsmeistaranna jókst í seinni hálfleiknum og var orðið tólf stig í byrjun fjórða leikhluta en Grindvíkingar galopnuðu leikinn á ný þegar þeir minnkuðu muninn úr 79:67 í 79:76 þegar enn voru sex mínútur eftir og jöfnuðu fljótlega eftir það, 81:81.
Ólafur Ólafsson kom síðan Grindavík yfir, 88:86, með glæsilegri þriggja stiga körfu þegar tvær og hálf mínúta voru eftir. Ísraelski bakvörðurinn Naor Sharabani skoraði síðan fimm stig á nokkrum sekúndum á lokamínútunni þar sem hann kom Grindavík í 93:88. Glynn Watson skoraði þriggja stiga körfu fyrir Þór þegar innan við tvær sekúndur voru eftir, 93:91. Kristinn Pálsson tryggði Grindavík sigurinn með tveimur vítaskotum, 95:91.
Sharabani skoraði 21 stig fyrir Grindavík, Ólafur Ólafsson og Ivan Aurrecoechea 20 hvor, en Aurrecoechea tók auk þess 12 fráköst.
Danski framherjinn Daniel Mortensen skoraði 32 stig fyrir Þór og tók níu fráköst, Glynn Watson skoraði 19 og Davíð Arnar Ágústsson skoraði 18, öll með þriggja stiga skotum þar sem hann var með 60 prósent nýtingu.