Ótrúlegur endasprettur Stjörnunnar

Stjörnumaðurinn David Gabrovsek reynir að komast framhjá Blikanum Samuel Prescott …
Stjörnumaðurinn David Gabrovsek reynir að komast framhjá Blikanum Samuel Prescott í leiknum í Ásgarði í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Stjörnumenn sneru vonlítilli stöðu upp í sigur í kvöld þegar þeir unnu upp átján stiga forskot Breiðabliks á lokakafla leiksins og unnu Kópavogsliðið 117:113 í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Subway-deildinni, í grannaslag í Garðabæ.

Nýliðarnir úr Kópavogi töpuðu fimm af fyrstu sex leikjum sínum í deildinni en desember hafði verið gjöfull fyrir þá því Blikar sigruðu Þór frá Akureyri, Vestra og Val í þremur síðustu leikjum sínum á undan þessum. Fjórði sigurinn í röð blasti við þeim í kvöld.

Það eru hinsvegar Stjörnumenn, nú komnir með 10 stig og í áttunda sætið, tveimur stigum á undan Blikum, sem eru í níunda sæti með 8 stig.

Eina ferðina enn var mikið skorað í leikjum Breiðabliks sem var yfir eftir fyrsta leikhlutann, 33:27, og í hálfleik, 62:57. Blikar juku forskotið í seinni hálfleik og voru komnir átján stigum yfir, 98:80, þegar tvær mínútur voru liðnar af fjórða leikhluta.

En Stjörnumenn tóku þá mikinn sprett og minnkuðu muninn í fjögur stig á skömmum tíma, 103:99. Blikar komu því strax upp í tíu stig en Garðbæingar sóttu enn að þeim og staðan var 111:108 fyrir Blika þegar tvær mínútur voru eftir. Stjörnumenn jöfnuðu síðan 113:113 þegar 90 sekúndur voru eftir af leiknum og náðu forystunni í kjölfarið, 115:113.

Hilmar Smári Henningsson skoraði úr tveimur vítaskotum þegar 13 sekúndur voru eftir og tryggði Garðbæingum sigurinn.

Robert Turner átti magnaðan leik með Stjörnunni en hann skoraði 43 stig, tók 11 fráköst og átti 5 stoðsendingar. Shawn Hopkins skoraði 25 stig og tók 10 fráköst, David Gabrovsek skoraði 18 og Hilmar Smári Henningsson 12. Þá var Hlynur Bæringsson með 9 stig og 12 fráköst.

Everage Lee Richardson skoraði 33 stig fyrir Blika og tók 11 fráköst. Hilmar Pétursson skoraði 27 stig, Samuel Prescott 24 og Danero Thomas 15.

Gangur leiksins:: 10:12, 16:22, 20:29, 27:33, 32:35, 36:41, 43:51, 57:62, 57:72, 64:76, 72:87, 80:91, 80:98, 97:103, 108:113, 117:113.

Stjarnan: Robert Eugene Turner III 43/11 fráköst/5 stoðsendingar, Shawn Dominique Hopkins 25/10 fráköst, David Gabrovsek 18/9 fráköst, Hilmar Smári Henningsson 12, Hlynur Elías Bæringsson 9/12 fráköst/7 stoðsendingar, Tómas Þórður Hilmarsson 5, Arnþór Freyr Guðmundsson 3, Gunnar Ólafsson 2/5 fráköst.

Fráköst: 34 í vörn, 16 í sókn.

Breiðablik: Everage Lee Richardson 33/11 fráköst/8 stoðsendingar, Hilmar Pétursson 27/6 fráköst/8 stoðsendingar, Samuel Prescott Jr. 24/5 fráköst, Danero Thomas 15/7 fráköst, Sigurður Pétursson 9/4 fráköst, Sveinbjörn Jóhannesson 3, Árni Elmar Hrafnsson 2/5 stoðsendingar.

Fráköst: 29 í vörn, 5 í sókn.

Dómarar: Eggert Þór Aðalsteinsson, Davíð Kristján Hreiðarsson, Stefán Kristinsson.

Áhorfendur: 50

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert