Njarðvík vann 78:74-útisigur á toppliði Keflavíkur í grannaslag í Subway-deild karla í körfubolta í kvöld. Keflavík er enn í toppsætinu með 18 stig á meðan Njarðvík er komið upp að hlið Grindavíkur í þriðja sæti með 14 stig.
Njarðvík byrjaði töluvert betur og Fotios Lampropoulos og Haukur Helgi Pálsson voru báðir að hitta mjög vel fyrir utan. Hinum megin náði Keflavík sér lítið á strik, fyrir utan Dominykas Milka, sem var stærsta ástæða þess að Njarðvík stakk ekki af.
Staðan eftir fyrsta leikhlutann var 23:14, Njarðvík í vil. Njarðvík skoraði fjögur fyrstu stigin í öðrum leikhluta og var með 40:27-forskot þegar skammt var til hálfleiks. Þá tók Keflavík við sér og skoraði átta stig gegn einu og var munurinn því aðeins sex stig í hálfleik, 41:35.
Keflavík byrjaði miklu betur í seinni hálfleik og komst fljótlega í 47:45. Örfáum mínútum síðar var staðan orðin 52:45, eftir 15 stig í röð hjá Keflavík. Jaka Brodnik var í miklu stuði og skoraði sex stig á skömmum tíma.
Þá tók Njarðvík aftur við sér og það voru gestirnir sem voru með forystu fyrir lokaleikhlutann, 55:52. Logi Gunnarsson skoraði þriggja stiga körfu snemma í fjórða leikhlutanum og kom gestunum sjö stigum yfir, 61:54.
Þrátt fyrir að Milka hafi fengið sína fimmtu villu um fimm mínútum fyrir leikslok gáfust Keflavíkingar ekki upp og þeim tókst að minnka muninn í þrjú stig, 71:68. Njarðvík var hinsvegar sterkari á lokakaflanum og tryggði sér sanngjarnan sigur.
Fotios Lampropoulos skoraði 21 stig og tók 12 fráköst fyrir Njarðvík og Mario Matasovic gerði 19 stig og tók 8 fráköst. Jaka Brodnik fór á kostum fyrir Keflavík og skoraði 31 stig og tók 18 fráköst.