Landsliðskona í barneignarfríi

Embla Kristínardóttir, Hallveig Jónsdóttir, Hildur Björg Kjartansdóttir og Helena Sverrisdóttir. …
Embla Kristínardóttir, Hallveig Jónsdóttir, Hildur Björg Kjartansdóttir og Helena Sverrisdóttir. Hildur og Helena misstu af síðustu landsleikjum og nú er Embla komin í frí frá boltanum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ingunn Embla Kristínardóttir, landsliðskona í körfuknattleik, hefur leikið sinn síðasta leik á þessu keppnistímabili þar sem hún er barnshafandi. 

Embla var í liði Skallagríms sem dregið var úr keppni á Íslandsmótinu fyrr í vetur og hún er því ekki að leita sér að öðru liði eins og er.

„Ég er ólétt og spila því ekki meira í vetur. Þannig er bara staðan. Ég þjálfa 9. og 10. flokk kvenna hjá Skallagrími og tók við þeim liðum af Goran. Ég verð með þær alla vega út tímabilið en ég veit ekki hvað ég geri á næsta tímabili,“ sagði Embla þegar mbl.is tók stöðuna á henni en Embla er á sínu öðru tímabili í Borgarnesi. 

Embla átti mjög góðan leik gegn Rúmeníu í Búkarest í undankeppni EM í nóvember. Hún spilaði landsleikinn með barn undir belti ef svo má segja. En hún spilaði svo ekki meira með Skallagrími eftir landsliðsverkefnið.

Ingunn Embla Kristínardóttir í leiknum gegn Rúmeníu.
Ingunn Embla Kristínardóttir í leiknum gegn Rúmeníu. Ljósmynd/FIBA

Spurð út í ákvörðun Skallagríms um að draga liðið úr keppni segist Embla að staðan hafi að mörgu leyti verið erfið hjá körfuknattleiksdeildinni. 

„Það var fundað fyrir tímabilið þar sem kallað var eftir hjálp. Þetta byrjaði þar. Það gekk ekki að manna stjórn og gekk ekki að ná í fjármagn. Liðið spilaði tvo eða þrjá leiki eftir að ég fór í barneignarfríið. Liðið hafði skipt um útlendinga og það var fátt sem var að vinna með liðinu. Það vantaði fólk í stjórn og starfið var á herðum tveggja eða þriggja einstaklinga. Það er erfitt að bera uppi deild ef það eru bara tveimur eða þrír einstaklingar í starfinu.

Kannski var farið svolítið seint af stað fyrir þetta keppnistímabil. Þetta er mikil vinna og mjög erfitt að halda liðum úti. En það er stefnt að því að vera með lið í 1. deild á næsta ári,“ sagði Embla en Skallagrímur varð bikarmeistari kvenna snemma árs 2020 eða rétt áður en kórónuveiran fór að hrella heimsbyggðina. 

„Þetta er mikið fall frá því að vera bikarmeistari. Eftir það kom eitt tímabil þar sem er ekki frábær árangur og svo er liðið dregið úr keppni. Þetta er sjokk fyrir fólk sem býr hér í Borgarnesi og hefur áhuga á körfunni. Þetta sýnir líka að það getur verið erfitt að halda úti liði á landsbyggðinni og flóknara en fólk gerir sér grein fyrir,“ sagði Embla ennfremur en hún lék áður með Keflavík og Grindavík. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert