Ósanngjarnt að leiknum hafi verið frestað

Draymond Green gagnrýnir NBA fyrir að hafa frestað leik Golden …
Draymond Green gagnrýnir NBA fyrir að hafa frestað leik Golden State Warriors og Denver Nuggets. AFP

Draymond Green, leikmaður Golden State Warriors í NBA-deildinni í körfuknattleik, er verulega ósáttur við að leik liðsins gegn Denver Nuggets, sem átti að fara fram í nótt, hafi verið frestað.

Leiknum var frestað vegna fjölda kórónuveirusmita og meiðsla innan herbúða Denver, en samkvæmt NBA-deildinni verða átta leikmenn liðs að vera leikfærir á leikdag svo leikur geti farið fram.

Leikmennirnir Jeff Green, Zeke Nnaji og Bones Hyland eru smitaðir af veirunni og þá ríkti óvissa um þátttöku Monte Morris, Aaron Gordon, Austin Rivers og Vlatko Cancar í leiknum vegna meiðsla.

Þetta er Draymond Green ekki sáttur við og telur liðum mismunað. Lét hann ósætti sitt í ljós á twitteraðgangi sínum: „Hvernig má það vera að deildin haldi áfram að fresta leikjum þegar hún hefur komið á fót reglum sem eiga að koma í veg fyrir að þetta gerist?

Er þetta ekki öðrum lið í hag? Átti fjarvera þeirra leikmanna okkar sem eru með veiruna ekki þátt í því að við töpuðum fyrir þeim á þriðjudag [aðfaranótt miðvikudags]? Takið afstöðu í stað þess að draga lappirnar.“

Liðin mættust aðfaranótt miðvikudags þar sem Denver vann 89:86 sigur. „Þegar frestaði leikurinn fer svo fram – sem mun væntanlega taka einn dag frá „hléi“ okkar – munum við þurfa að mæta sterkasta liði þeirra.

En þeir fengu að lauma inn sigri þegar við vorum ekki með okkar sterkasta lið fyrir aðeins tveimur dögum? Reynum að láta það meika sens,“ skrifaði Green einnig.

Hann sagði að það væri einnig Denver í hag að Golden State myndi væntanlega þurfa að spila tvo daga í röð þegar frestaði leikurinn færi loks fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert