Nokkur af stærstu nöfnum NBA-deildarinnar í körfuknattleik stóðu svo sannarlega undir þeim þegar þrír leikir fóru fram í deildinni í nótt.
Kamerúninn Joel Embiid leiddi Philadelphia 76ers til sigurs gegn Brooklyn Nets þegar hann skoraði 34 stig í 110:102-sigri.
Í liði Brooklyn náði James Harden þrefaldri tvennu er hann skoraði 33 stig, tók 14 fráköst og gaf tíu stoðsendingar.
Liðsfélagi hans Kevin Durant skoraði einnig 33 stig.
Ríkjandi meistarar Milwaukee unnu þá sterkan 136:118-sigur á Orlando Magic þar sem Grikkinn Giannis Antetokounmpo var í essinu sínu og náði tvöfaldri tvennu er hann skoraði 33 stig og tók 12 fráköst.
Bradley Beal fór þá fyrir Washington Wizards sem lagði Cleveland Cavaliers að velli, 110:93. Náði hann tvöfaldri tvennu þegar hann skoraði 29 stig og gaf tíu stoðsendingar.
Samherji hans Kyle Kuzma náði einnig tvöfaldri tvennu, en hann skoraði 25 stig og tók tíu fráköst.