LeBron kvaddi árið með látum

LeBron James með boltann í nótt.
LeBron James með boltann í nótt. AFP

Los Angeles Lakers átti einn sinn besta leik á tímabilinu til þessa í NBA-deildinni í körfubolta vestanhafs í nótt en stórstjarnan LeBron James átti stærstan þátt í 139:106-stórsigri á heimavelli gegn Portland Trail Blazers.

LeBron kvaddi árið 2021 með látum því hann skoraði 43 stig og tók 14 fráköst. Russell Westbrook var með 15 stig, 13 fráköst og 12 stoðsendingar. Ben McLemore skoraði 28 stig fyrir Portland.

Lakers er í sjöunda sæti Vesturdeildarinnar með 18 sigra og 19 töp en Portland er í 14. sæti sömu deildar með 13 sigra og 22 töp.

Donovan Mitchell hjá Utah Jazz kvaddi síðasta ár einnig með látum en hann skoraði 39 stig fyrir Utah í 120:108-heimasigri á Minnesota Timberwolves. Anthony Edwards gerði 26 stig fyrir Minnesota. Utah er í þriðja sæti Vesturdeildarinnar og Minnesota í níunda.

Þá fór Chicago upp í toppsæti Austurdeildarinnar með 108:106-útisigri á Indiana Pacers. DeMar DeRozan gerði 28 stig fyrir Chicago og Caris LeVert 27 fyrir Indiana sem er í 13. sæti Austurdeildarinnar.

Úrslit næturinnar í NBA-körfuboltanum:
Indiana Pacers – Chicago Bulls 106:108
Sacramento Kings – Dallas Mavericks 96:112
Houston Rockets – Miami Heat 110:120
Cleveland Cavaliers – Atlanta Hawks 118:121
Toronto Raptors – Los Angeles Clippers 116:108
Memphis Grizzlies – San Antonio Spurs 118:105
Oklahoma City Thunder – New York Knicks 95:80
Utah Jazz – Minnesota Timberwolves 120:108
Los Angeles Lakers – Portland Trail Blazers 139:106

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert