Fáir íþróttamenn hafa þurft að bíða jafnlengi eftir því að snúa aftur til keppni og bandaríski körfuboltamaðurinn Klay Thompson sem nú eygir von um að spila á ný næsta sunnudag.
Thompson sem leikur með Golden State Warriors var í stóru hlutverki í liðinu sem vann NBA-deildina 2015, 2017 og 2018. Undanfarin tvö tímabil sem Thompson hefur alveg misst af vegna meiðsla hefur Golden State hinsvegar ekki komist í úrslitakeppnina.
Thompson er 31 árs Kaliforníubúi og hefur leikið allan sinn NBA-feril með Golden State en á átta tímabilum með liðinu hefur hann skorað 19,5 stig að meðaltali í leik. Hann er mögnuð þriggja stiga skytta og er með 41,9 prósent skotnýtingu af því færi á ferlinum. Hann setti NBA-met þegar hann skoraði fjórtán 3ja stiga körfur í leik gegn Chicago Bulls í október árið 2018.
ESPN skýrir frá endurkomu Thompsons og segir að hjá Warriors séu menn bjartsýnir á að fyrsti leikur hans í tvö og hálft ár verið heimaleikurinn gegn Cleveland Cavaliers á sunnudaginn. Liðið er þessa stundina að búa sig undir heimaleik gegn Miami Heat sem fer fram í nótt og síðan taka við tveir útileikir gegn Dallas og New Orleans á miðvikudags- og fimmtudagskvöld.
Samkvæmt ESPN mun Golden State ekki staðfesta hvort Thomnpson spili á sunnudaginn fyrr en að loknu ferðalaginu til Texas og Louisiana.
Thompson sleit krossband í hné í úrslitakeppninni vorið 2019, og það kostaði hann alveg tímabilið 2019-20. Þegar hann var að komast aftur af stað haustið 2020 sleit hann hásin í fæti og þar með var hann líka úr leik allt tímabilið 2020-21. Hann hefur síðustu vikurnar komið sér af stað á ný með því að spila með Santa Cruz Warriors, varaliði Golden State í NBA G-deildinni.