Stjörnumenn héldu áfram á sigurbraut í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í kvöld þegar þeir lögðu Njarðvíkinga að velli í Garðabæ í fyrsta leik ársins, 97:77.
Garðbæingar hafa þar með unnið þrjá leiki í röð og fjóra af síðustu fimm og eru búnir að rétta sig vel af eftir slæma byrjun á Íslandsmótinu. Þeir eru komnir með 12 stig eftir ellefu leiki og jöfnuðu með sigrinum við Tindastól og Val í fimmta til sjöunda sæti.
Njarðvíkingar eru áfram í fjórða sætinu með 14 stig eftir ellefu leiki.
Stjarnan komst í 23:12 í fyrsta leikhluta og Garðbæingar fóru síðan á kostum í öðrum leikhluta þegar þeir skoruðu 30 stig gegn 18 og voru með 23 stiga forystu í hálfleik, 53:30.
Njarðvíkingum gekk illa að minnka þennan mun framan af seinni hálfleiks en komu honum niður í tólf stig rétt fyrir lok þriðja leikhluta, 69:57. Stjarnan skoraði hinsvegar tvær síðustu körfurnar og staðan var 73:57 þegar leikhlutanum lauk.
Njarðvíkingar náðu sínu besta áhlaupi þegar langt var liðið á fjórða leikhluta og minnkuðu muninn í níu stig, 82:73. Því svöruðu Stjörnumenn hinsvegar með fimm stigum á skömmum tíma og staðan var 87:73 þegar rúmar tvær mínútur voru eftir. Þar með voru úrslitin ráðin og munurinn varð tuttugu stig í lokin.
Robert Turner skoraði 21 stig fyrir Stjörnuna og tók 8 fráköst, Shawn Hopkins var með 18 stig og 9 fráköst, Hilmar Smári Henningsson 14 stig, Gunnar Ólafsson og David Gabrovsek 13 hvor.
Haukur Helgi Pálsson skoraði 21 stig fyrir Njarðvíkinga, Logi Gunnarsson og Dedrick Basile 15 og Mario Matasovic 12 stig og 11 fráköst.
Gangur leiksins: 11:3, 15:8, 22:8, 23:12, 34:15, 39:19, 45:25, 53:30, 56:32, 61:40, 67:48, 73:57, 80:63, 82:67, 85:73, 97:77.
Stjarnan: Robert Eugene Turner III 21/8 fráköst, Shawn Dominique Hopkins 18/9 fráköst, Hilmar Smári Henningsson 14/6 fráköst/5 stoðsendingar, Gunnar Ólafsson 13/5 fráköst, David Gabrovsek 13/9 fráköst, Hlynur Elías Bæringsson 10/8 fráköst, Arnþór Freyr Guðmundsson 6/4 fráköst, Tómas Þórður Hilmarsson 1, Ragnar Agust Nathanaelsson 1.
Fráköst: 33 í vörn, 20 í sókn.
Njarðvík: Haukur Helgi Pálsson 21/4 fráköst, Dedrick Deon Basile 15, Logi Gunnarsson 15, Mario Matasovic 12/11 fráköst, Nicolas Richotti 7/6 stoðsendingar, Maciek Stanislav Baginski 5/5 fráköst, Fotios Lampropoulos 2/5 fráköst.
Fráköst: 22 í vörn, 7 í sókn.
Dómarar: Davíð Tómas Tómasson, Davíð Kristján Hreiðarsson, Eggert Þór Aðalsteinsson.
Áhorfendur: 81