Leik Fjölnis og Breiðabliks í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik, Subway-deildinni, sem fram átti að fara í Grafarvogi annað kvöld, hefur verið frestað.
Í tilkynningu frá KKÍ segir að frestað sé vegna sóttkvíar og einangrunar hjá leikmönnum úr Breiðabliki. Leiknum verði fundinn nýr dagur sem fyrst og mögulega um næstu helgi.
Áður var búið að fresta leik Hauka og Njarðvíkur í sömu deild sem átti einnig að fara fram annað kvöld.