RJ Barrett reyndist hetja New York Knicks þegar liðið vann dramatískan þriggja stiga heimasigur gegn Boston Celtics í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.
Staðan var 105:105 þegar nokkrar sekúndur voru til leiksloka en Barrett skoraði þriggja stiga flautukörfu sem tryggði New York sigurinn.
Barrett skoraði 13 stig í leiknum en Evan Fournier fór á kostum í liði New York, skoraði 41 stig og tók átta fráköst.
New York er með 19 sigra í tíunda sæti austurdeildarinnar en Boston er í því ellefta með átján sigra.
Þá skoraði Chris Paul 14 stig fyrir Phoenix Suns, tók þrettán fráköst og gaf tíu stoðsendingar þegar liðið vann 106:89-sigur gegn LA Clippers á heimavelli.
Phoenix er með 30 sigra í efsta sæti vesturdeildarinnar, sigri meira en Golden State Warriors.
Úrslit næturinnar í NBA:
New York – Boston 108:105
Memphis – Detroit 118:88
New Orleans – Golden State 101:96
Phoenix – LA Clippers 106:89