Landsliðsbakvörðurinn Elvar Már Friðriksson lék ekki með Antwerp Giants gegn Mechelen í BNXT-deildinni, sameiginlegri úrvalsdeild Belgíu og Hollands, í gærkvöldi þar sem hann hefur greinst með kórónuveiruna.
Antwerp Giants staðfesti tíðindin á twitteraðgangi sínum í gær og greindi um leið frá því að Elvar Már muni einnig missa af næsta leik liðsins, gegn Okapi Aalst í deildinni á morgun.
Í vikunni greindist annar landsliðsbakvörður, Martin Hermannsson hjá Valencia, einnig með veiruna.