Julius Randle framherji New York Knicks var ósmeykur við að senda stuðningsmönnum Knicks skilaboð þegar þeir bauluðu á liðið í leiknum gegn Boston Celtics aðfaranótt föstudags.
New York var í miklum vandræðum í leiknum og lenti mest 25 stigum undir. Stuðningsmenn New York liðanna í íþróttum liggja ekki á skoðunum sínum og leikmenn Knicks máttu þola í leiknum að baulað væri á þá á heimavelli.
Knicks leikur heimaleikina í Madison Square Garden, einu þekktasta íþrótta-og tónleikahúsi heims. Þótt Knicks hafi ekki unnið NBA í liðlega hálfa öld er yfirleitt fullt hús á leikjum liðsins og oftar en ekki margt þekkt fólk í afreyingariðnaðinum.
Randle sem er þekktur fyrir að sýna tilfinningar á vellinum gaf stuðningsmönnum Knicks merki í leiknum þar sem hann vísaði þumlinum niður til merkis um óánægju sína. Knicks tókst að snúa blaðinu við í leiknum og tryggja sér sigur í síðustu sókninni.