Tindastóll hafði betur gegn nágrönnum sínum í Þór frá Akureyri þegar liðin mættust á Akureyri í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Subway-deildinni, í kvöld.
Leikurinn var hnífjafn framan af enda staðan í leikhléi 47:46, Tindastóli í vil.
Heimamenn í Þór byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti og komust í 51:55. Stólarnir voru þó fljótir að snúa taflinu við sér í vil og komust í 67:63.
Tindastóll bætti aðeins í og leiddi með átta stigum, 76:68, að loknum þriðja leikhluta.
Stólarnir náðu að halda Þórsurum frá sér, bættu aðeins við undir lokin og unnu að lokum góðan 12 stiga sigur, 103:91.
Javon Bess var stigahæstur allra í leiknum með 34 stig fyrir Tindastól. Skammt undan var liðsfélagi hans Taiwo Badmus með 30 stig.
Stigahæstir heimamanna í Þór voru Atle N’Diaye með 32 stig og Reginald Keely náði tvöfaldri tvennu þegar hann skoraði 24 stig og tók 14 fráköst að auki.
Tindastóll fer með sigrinum upp í fimmta sæti deildarinnar þar sem liðið er með 14 stig að loknum 11 leikjum.
Á meðan er Þór áfram á botni deildarinnar með aðeins tvö stig.