Igor Maric var stigahæstur ÍR-inga þegar liðið vann afar mikilvægan sigur gegn Stjörnunni í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Subway-deildinni, í Seljaskóla í Breiðholti í 12. umferð deildarinnr í kvöld.
Leiknum lauk með 88:77-sigri ÍR en Maric skoraði 24 stig og tók sjö fráköst í leiknum.
ÍR-ingar byrjuðu leikinn mun betur og leiddu 27:10 eftir fyrsta leikhluta. Garðbæingum tókst að laga stöðuna í öðrum leikhluta og var staðan 45:38, ÍR í vil, í hálfleik.
Jafnræði var með liðunum í síðari hálfleik en það voru ÍR-ingar sem voru sterkari undir restina og þeim tókst að innbyrða sigur.
Colin Pryor skoraði 20 stig fyrir ÍR og tók átta fráköst en David Gabrovsek var stigahæstur í liði Stjörnunnar með 16 stig og átta fráköst.
ÍR er með 8 stig í tíunda sæti deildarinnar, tveimur stigum frá fallsæti, en Stjarnan er með 12 stig í sjöunda sætinu.