Golden State Warriors náði sér ekki á strik án stórstjörnunnar Steph Curry og tapaði stórt, 99:119, á útivelli gegn Minnesota Timberwolves þegar liðin mættust í NBA-deildinni í körfuknattleik í gærkvöldi.
Curry meiddist á skothönd sinni í síðasta leik Golden State og gat því ekki spilað. Liðið saknaði hans mikið því sóknarleikur þess gekk erfiðlega í gærkvöldi.
Jordan Poole var stigahæstur hjá Golden State með 20 stig.
Stigahæstur í leiknum var hins vegar Karl-Anthony Towns, en hann náði tvöfaldri tvennu fyrir Minnesota. Skoraði hann 26 stig og tók 11 fráköst að auki.
Utah Jazz vann þá sterkan 125:102-sigur á Denver Nuggets.
Serbinn Nikola Jokic fór á kostum í liði Denver og náði þrefaldri tvennu. Skoraði hann 25 stig, tók 15 fráköst og gaf 14 stoðsendingar.
Stigahæstur í leiknum var Donovan Mitchell með 31 stig og Frakkinn Rudy Gobert náði tvöfaldri tvennu er hann skoraði 18 stig og tók 19 fráköst.
Alls fóru þrír leikir fram í gærkvöldi og nótt í NBA-deildinni:
Minnesota – Golden State 119:99
Denver – Utah 102:125
Sacramento – Houston 112:118