Íslandsmeistararnir sigruðu nýliðana

Glynn Watson lék vel í kvöld.
Glynn Watson lék vel í kvöld. mbl.is/Unnur Karen

Ríkjandi Íslandsmeistarar Þórs frá Þorlákshöfn gerðu góða ferð til Ísafjarðar þegar þeir unnu öruggan 101:81 sigur á nýliðum Vestra í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Subway-deildinni, í kvöld.

Heimamenn í Vestra byrjuðu vel og leiddu naumlega, 18:21, að loknum fyrsta leikhluta.

Í öðrum leikhluta var áfram allt í járnum en gestirnir úr Þorlákshöfn náðu þó að snúa taflinu við og leiddu með þremur stigum, 45:42, í leikhléi.

Í síðari hálfleik sýndu Þórsarar hins vegar mátt sinn og megin og juku forskot sitt í sífellu. Mestur varð munurinn 28 stig, 90:62, í fjórða og síðasta leikhluta.

Leikmenn Vestra náðu að laga stöðuna aðeins undir lokin en niðurstaðan að lokum afar öruggur 20 stiga sigur Þórs.

Stigahæstur í leiknum var Luciano Massarelli sem skoraði 29 stig fyrir Þór. Glynn Watson kom þar á eftir með 23 stig.

Daniel Mortensen var þá með tvöfalda tvennu er hann skoraði 12 stig og tók 11 fráköst.

Stigahæstur hjá Vestra var Marko Jurica með 28 stig og þar á eftir var Ken-Jah Bosley með 21 stig.

Nemanja Knezevic náði þá tvöfaldri tvennu með því að skora 13 stig og taka 14 fráköst.

Þór fer með sigrinum á topp deildarinnar, að minnsta kosti um stundarsakir, en síðar í kvöld getur Njarðvík náð toppsætinu sigri það Val á útivelli. Þór er með 20 stig líkt og Keflavík en Njarðvík er með 18 stig.

Vestri er sem fyrr í næstneðsta sæti, 11. sæti, með 6 stig, fjórum stigum frá öruggu sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert