Valur gerði góða ferð til Ísafjarðar þar sem liðið vann öruggan 95:70-sigur á nýliðum Vestra í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Subway-deildinni, í kvöld.
Eftir hnífjafnan fyrsta leikhluta þar sem staðan var jöfn, 24:24, stungu gestirnir í Val af í öðrum leikhluta og leiddu með 13 stigum í hálfleik, 49:36.
Í síðari hálfleik hertu Valsmenn enn frekar tökin og unnu að lokum auðveldan 25 stiga sigur.
Pavel Ermolinskij og Kristófer Acox voru báðir öflugir í liði Vals og náðu tvöfaldri tvennu.
Pavel tók 21 frákast og gaf 13 stoðsendingar ásamt því að skora átta stig og Kristófer skoraði tíu stig og tók 14 fráköst.
Stigahæstir Valsmanna voru Hjálmar Stefánsson og Callum Lawson, báðir með 17 stig.
Stigahæstur heimamanna í Vestra og í leiknum var Ken-Jah Bosley með 22 stig. Marko Jurica náði tvöfaldri tvennu með því að skora 15 stig og taka tíu fráköst.
Valur heldur kyrru fyrir í fimmta sæti deildarinnar og Vestri gerir slíkt hið sama í 11. og næstneðsta sæti.
Ísafjörður, Subway deild karla, 03. febrúar 2022.
Gangur leiksins:: 4:8, 8:16, 17:18, 24:24, 27:29, 31:41, 34:48, 36:49, 38:52, 42:63, 42:64, 48:69, 50:76, 57:80, 70:91, 70:95.
Vestri: Ken-Jah Bosley 22, Marko Jurica 15/10 fráköst, Rubiera Rapaso Alejandro 14/4 fráköst, Nemanja Knezevic 13/15 fráköst, Hilmir Hallgrímsson 6/5 fráköst.
Fráköst: 23 í vörn, 13 í sókn.
Valur: Callum Reese Lawson 17, Hjálmar Stefánsson 17/5 fráköst, Pablo Cesar Bertone 15, Kári Jónsson 12/5 fráköst/7 stoðsendingar, Kristófer Acox 10/14 fráköst, Benedikt Blöndal 9, Pavel Ermolinskij 8/21 fráköst/13 stoðsendingar, Sveinn Búi Birgisson 7.
Fráköst: 36 í vörn, 16 í sókn.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Davíð Kristján Hreiðarsson, Sigurbaldur Frimannsson.
Áhorfendur: 200