Körfuknattleiksdeild ÍR var í dag dæmt af Landsrétti til að greiða leikmanninum Sigurði Gunnari Þorsteinssyni tæplega tvær milljónir króna auk dráttarvaxta vegna vangoldinna launa. Þá var deildinni gert að greiða 800.000 krónur í málskostnað.
Héraðsdómur hafði áður dæmt Sigurði í vil en ÍR-ingar áfrýjuðu til Landsréttar, sem hefur nú staðfest dóminn. Sigurður, sem leikur með Tindastóli í dag, gerði tveggja ára samning við ÍR haustið 2018. Hann sleit hinsvegar krossband í sínum fyrsta deildarleik með ÍR og lék því ekki meira með liðinu á tímabilinu.
Félagið ákvað í kjölfarið að borga Sigurði ekki laun á meðan hann glímdi við meiðslin, þar sem það taldi leikmanninn ekki hafa uppfyllt sinn hluta samningsins. Landsréttur tók hinsvegar undir niðurstöðu Héraðsdóms og taldi félagið hafa borið áhættuna af því að Sigurður slasaðist í leik með ÍR.