Valur vann sterkan 81:78-sigur á erkifjendum sínum og nágrönnum í KR þegar liðin mættust í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Subway-deildinni, í Origo-höllinni á Hlíðarenda í kvöld.
Leikurinn var sveiflukenndur og skemmtilegur. Valsmenn leiddu að loknum fyrsta leikhluta, 21:14, en KR-ingar voru sterkir í öðrum leikhluta og minnkuðu muninn niður í aðeins eitt stig fyrir leikhlé.
Staðan í hálfleik var 41:40.
Í síðari hálfleik var áfram allt í járnum og eftir æsispennandi lokasekúndur náðu KR-ingar varnarfrákasti þegar 13 sekúndur voru eftir og staðan 81:78.
Gestirnir höfðu því nægan tíma til þess að fara í eina lokasókn og freista þess að jafna metin en þriggja stiga skottilraun Dani Koljanin geigaði á ögurstundu og Valsmenn fóru því með þriggja stiga sigur af hólmi.
Koljanin lék annars afar vel í leiknum og náði tvöfaldri tvennu. Var hann stigahæstur allra með 26 stig og tók einnig tíu fráköst. Skammt undan var Brynjar Þór Björnsson með 22 stig.
Pablo Bertone var stigahæstur Valsmanna með 23 stig, auk þess sem hann tók níu fráköst. Hjálmar Stefánsson kom þar á eftir með 17 stig.
Origo-höllin, Subway deild karla, 07. febrúar 2022.
Gangur leiksins:: 3:5, 10:5, 13:9, 21:14, 26:21, 34:23, 37:30, 41:40, 44:49, 46:51, 55:53, 61:57, 65:60, 68:64, 78:70, 81:78.
Valur: Pablo Cesar Bertone 23/9 fráköst/7 stoðsendingar, Hjálmar Stefánsson 17/7 fráköst, Kári Jónsson 13/5 fráköst/5 stoðsendingar, Callum Reese Lawson 11/4 fráköst, Benedikt Blöndal 9, Kristófer Acox 8/7 fráköst.
Fráköst: 24 í vörn, 8 í sókn.
KR: Dani Koljanin 26/10 fráköst, Brynjar Þór Björnsson 22, Þorvaldur Orri Árnason 14/6 fráköst, Adama Kasper Darbo 11/5 fráköst/8 stoðsendingar, Björn Kristjánsson 3, Veigar Áki Hlynsson 2.
Fráköst: 23 í vörn, 5 í sókn.
Dómarar: Ísak Ernir Kristinsson, Sigmundur Már Herbertsson, Sigurður Jónsson.
Áhorfendur: 133