Giannis fór illa með Lakers

Giannis Antetokounmpo og LeBron James eigast við í leik Milwaukee …
Giannis Antetokounmpo og LeBron James eigast við í leik Milwaukee og Lakers í nótt. AFP

Grikkinn Giannis Antetokounmpo fór illa með Los Angeles Lakers í nótt þegar meistarar Milwaukee Bucks komu í heimsókn í Staples Center í LA.

Giannis var óstöðvandi í leiknum en hann hitti úr fyrstu ellefu skotum sínum og skoraði 44 stig, tók 14 fráköst og átti 8 stoðsendingar. Hann tapaði aldrei boltanum í leiknum. Le Bron James var í skugga hans með 27 stig og 8 stoðsendingar fyrir Lakers. Milwaukee er nú aðeins einum sigri á eftir Miami Heat á toppi Austurdeildarinnar en bæði lið hafa unnið 35 leiki, Miami eftir 55 leiki en Milwaukee eftir 56.

Chicago, Cleveland og Philadelphia eru síðan á hælum þeirra í gríðarlega jafnri keppni um toppsætin austan megin.

Philadelphia 76ers tapaði á heimavelli í nótt gegn hinu firnasterka liði Phoenix Suns, 109:114, en Phoenix er með bestan árangur allra liða í NBA í vetur, 44 sigra í 54 leikjum, og er þremur sigurleikjum á undan Golden State Warriors vestan megin. Devin Booker skoraði 35 stig fyrir Phoenix og Joel Embiid 34 stig fyrir Philadelphia.

Brooklyn Nets tapaði eina ferðina enn, í níunda sinn í síðustu tíu leikjum, og steinlá nú fyrir Boston Celtics á heimavelli, 91:126. Jaylen Brown og Marcus Smart skoruðu 22 stig hvor fyrir Boston sem er nú komið uppfyrir Brooklyn og í sjöunda sæti Austurdeildarinnar. 

Luka Doncic skoraði 33 stig og átti 11 stoðsendingar fyrir Dallas Mavericks sem vann auðveldan sigur á Detroit Pistons, 116:86.

Úrslitin í nótt:

Philadelphia - Phoenix 109:114
Atlanta - Indiana 133:112
Brooklyn - Boston 91:126
Memphis - LA Clippers 135:109
New Orleans - Houston 110:97
Dallas - Detroit 116:86
Denver - New York 132:115
LA Lakers - Milwaukee 116:131
Portland - Orlando 95:113
Sacramento - Minnesota 114:134

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert