Njarðvík á toppinn

Dedrick Deon Basile var stigahæstur Njarðvíkinga.
Dedrick Deon Basile var stigahæstur Njarðvíkinga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dedrick Basile átti frábæran leik fyrir Njarðvík þegar liðið heimsótti Tindastól í úrvaldeild karla í körfuknattleik, Subway-deildinni, í Síkið á Sauðárkróki í 16. umferð deildarinnar í kvöld.

Leiknum lauk með 96:84-sigri Njarðvíkur en Basile skoraði 20 stig í leiknum ásamt því að gefa 10 stoðsendingar.

Njarðvíkingar voru sterkari í fyrsta leikhluta og leiddu með tveimur stigum að honum loknum. 22:20. Njarðvíkingar juku forskot sitt um 6 stig í öðrum leikhluta og leiddu 44:36 í hálfleik.

Sauðkrækingum tókst að minnka forskot Njarðvíkinga í fjögur stig í þriðja leikhluta, 60:64, en Njarðvíkingar voru sterkari í fjórða leikhluta og fögnuðu nokkuð öruggum sigri.

Fotios Lampropoulos skoraði 17 stig og tók níu fráköst en Javon Bess var stigahæstur í liði Tindastóls með 25 stig og sex fráköst. 

Njarðvík tyllir sér á toppinn með sigrinum og er með 22 stig, líkt og Þór frá Þorlákshöfn, en Tindastóll er með 14 stig í sjöunda sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert