Stjarnan gerði góða ferð á Hlíðarenda þegar liðið heimsótti Val í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Subway-deildinni, í Origo-höllina á Hlíðarenda í 16. umferð deildarinnar í kvöld.
Leiknum lauk með fjögurra stiga sigri Stjörnunnar, 78:74, en Hilmar Smári Henningsson var stigahæstur Garðbæinga í leiknum með 19 stig, þrjú fráköst og tvær stoðsendingar.
Stjarnan byrjaði leikinn betur og leiddi 22:17 eftir fyrsta leikhluta en Valsmenn snéru leiknum sér í vil í öðrum leikhluta og voru tveimur stigum yfir í hálfleik, 43:41.
Valsmenn leiddu með níu stigum eftir þriðja leikhluta, 67:58, en Stjarnan náði forystunni á nýjan leik þegar tæpar tvær mínútur voru til leiksloka, 73:71, og létu hana ekki af hendi eftir það.
Robert Turner skoraði 18 stig fyrir Stjörnuna og gaf fimm stoðsendingar en Kári Jónsson átti stórleik fyrir Val, skoraði 29 stig og tók þrjú fráköst, en það dugði ekki til.
Garðbæingar jöfnuðu Val að stigum með sigrinum en Stjarnan er með 18 stig í fimmta sæti deildarinnar, líkt og Valur sem er í fjórða sætinu með 18 stig.