Stórsigrar á Akureyri og í Vesturbæ

Hilmir Hallgrímsson sækir að KR-ingum í Vesturbænum í kvöld.
Hilmir Hallgrímsson sækir að KR-ingum í Vesturbænum í kvöld. mbl.is/Unnur Karen

Carl Lindbom var stigahæstur KR þegar liðið vann öruggan sigur gegn Vestra í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Subway-deildinni, á Meistaravöllum í Vesturbæ í 16. umferð deildarinnar í kvöld.

Leiknum lauk með 106:79-sigri KR en Lindbom skoraði 29 stig, ásamt því að taka níu fráköst og gefa sex stoðsendingar.

KR-ingar byrjuðu leikinn af krafti og voru 7 stigum eftir fyrsta leikhluta, 27:20. Þeir skoruðu 30 stig gegn 19 stigum Vestra í öðrum leikhluta og var staðan 57:39, KR í vil, í hálfleik.

KR jók forskot sitt í þriðja leikhluta í 19 stig og Vestramenn voru aldrei líklegir til þess að snúa leiknum sér í vil í fjórða leikhluta þar sem þeir skoruðu einungis 11 stig.

Dani Koljanin skoraði 21 stig fyrir KR, ásamt því að taka níu fráköst, en Nemanja Knezevic var stigahæstur Vestra með 20 stig og tólf fráköst.

KR-ingar fara með sigrinum í níunda sæti deildarinnar í 14 stig en Vestri er með 6 stig í ellefta sætinu, átta stigum frá öruggu sæti.

Sæþór Elmar Kristjánsson sækir að Þórsurum á Akureyri í kvöld.
Sæþór Elmar Kristjánsson sækir að Þórsurum á Akureyri í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Öruggt hjá ÍR

Sigvaldi Eggertsson fór mikinn fyrir ÍR þegar liðið vann stórsigur gegn Þór frá Akureyri í Höllinni á Akureyri.

Sigvaldi skoraði 21 stig og tók tólf fráköst en leiknum lauk með 108:71-sigri ÍR.

Þórsarar voru yfir eftir fyrsta leikhluta, 19:18, en þá hrukku ÍR-ingar í gegn og Breiðhyltingar leiddu með 10 stigum í hálfleik, 42:32.

ÍR-ingar skoruðu 36 stig gegn 19 stigum Þórsara í þriðja leikhluta og gerðu þannig út um leikinn.

Jprdan Semple skoraði 20 stig og tók níu fráköst fyrir ÍR en Reginald Keely var stigahæstur Þórsara með 13 stig og fimm fráköst.

ÍR er með 14 stig í áttunda sætinu en Þórsarar eru með 2 stig í neðsta sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert