Blikar rjúka upp töfluna

Samuel Prescott reynir sendingu í Smáranum í kvöld.
Samuel Prescott reynir sendingu í Smáranum í kvöld. mbl.is/Unnur Karen

Breiðablik vann sinn þriðja leik í röð í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Subway-deildinni, þegar liðið tók á móti Grindavík í Smáranum í Kópavogi í 16. umferð deildarinnar í kvöld.

Leiknum lauk með 104:92-sigri Breiðabliks en Everage Richardson var stigahæstur í liði Breiðabliks með 32 stig, sjö fráköst og sex stoðsendingar.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en Blikar leiddu með fjórum stigum eftir fyrsta leikhluta, 32:28. Bæði lið skoruðu 22 stig í öðrum leikhluta og var staðan 54:50, Blikum í vil, í hálfleik.

Blikar mættu sterkari til leiks í síðari hálfleik og leiddu með átta stigum að þriðja leikhluta loknum, 80:72. Grindvíkingum gekk illa að skora í fjórða leikhluta, Blika gengu á lagið og fögnuðu þægilegum sigri í leikslok.

Hilmar Pétursson fór mikinn í liði Breiðabliks og skoraði 26 stig, ásamt því að taka þrjú fráköst og gefa fimm stoðsendingar. Ólafur Ólafsson var stigahæstur Grindvíkinga með 24 stig, ellefu fráköst og fimm stoðsendingar.

Breiðablik fer með sigrinum upp í sjöunda sæti deildarinnar í 14 stig, líkt og Tindastóll, ÍR og KR, en Grindavík er í sjötta sætinu með 16 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka