James Harden og Joel Embiid orðnir samherjar

James Harden og Ben Simmons í leik fyrir ári síðan.
James Harden og Ben Simmons í leik fyrir ári síðan. AFP

James Harden ein af stærstu stjörnum NBA-deildarinnar er ekki lengur leikmaður hjá hinu vel mannaða liði Brooklyn Nets og er kominn til Philadelphia 76ers. 

Félögin gerðu með sér athyglisverð leikmannaskipti. Brooklyn fær í staðinn Ben Simmons sem er frábær varnarmaður þegar hans nýtur við. Hann hefur hins vegar enn ekki spilað á tímabilinu þar sem hann er óbólusettur. Brooklyn er þegar í þeirri stöðu með Kyrie Irving en liðið teflir honum fram í þeim ríkjum þar sem það er leyfilegt. 

Brooklyn fær einnig skyttuna Seth Curry sem leikið hefur vel í Philadelphia og miðherjann Andre Drummond sem verið hefur varaskeifa fyrir hinn snjalla Joel Embiid. 

Seth Curry hefur átt fínt tímabil með Philadelphia 76ers þótt …
Seth Curry hefur átt fínt tímabil með Philadelphia 76ers þótt hann sé í skugga bróðurins. AFP

Hinn 37 ára gamli Paul Millsap fer einnig frá Brooklyn yfir til Philadelphia. 

Ævintýrið með ofurstjörnunum þremur hjá Brooklyn Nets er því lokið nánast áður en það byrjaði. Irving hefur lítið verið með í vetur og á síðasta tímabili var Kevin Durant frá vegna meiðsla. 

Harden er hins vegar orðinn samherji Embiid sem gæti orðið áhugavert og lið Philadelphiu hefur verið með þeim sterkari í Austurdeildinni.  James Harden var valinn besti leikmaður NBA árið 2018. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka