Íslandsmeistarar Þórs úr Þorlákshöfn völtuðu yfir Keflavík þegar liðin mættust í toppslag úrvalsdeildar karla í körfuknattleik, Subway-deildinni, í Icelandic Glacial-höllinni í Þorlákshöfn í 16. umferð deildarinnar í kvöld.
Leiknum lauk með 114:89-sigri Þórsara en Luciano Massarelli átti stórleik fyrir Þórsara, skoraði 32 stig og gaf sex stoðsendingar.
Þórsarar skutu Keflvíkinga í kaf í fyrri hálfleik og voru tíu stigum yfir eftir fyrsta leikhluta, 30:20. Þórsarar hittu úr hverju þriggja stiga skotinu af fætur öðru í öðrum leikhluta og var staðan 63:36, Þór í vil, í hálfleik.
Keflvíkingar voru aldrei líklegir til þess að snúa leiknum sér í vil í síðari hálfleik og Þórsarar leiddu 89:57 að þriðja leikhluta loknum. Fjórði leikhluti fjaraði svo út án þess að Keflavík næði að ógna forskoti Þórsara af neinu viti.
Ronaldas Rutkauskas skoraði 19 stig fyrir Þórsara, tók sex fráköst og gaf fjórar stoðsendingar en þeir Mustapha Heron og Darius Tarvydas voru stigahæstir Keflvíkinga með 20 stig hvor.
Þórsarar endurheimtu toppsæti deildarinnar með sigrinum í kvöld og eru með 24 stig í efsta sætinu en Keflavík er með 20 stig í þriðja sætinu. Keflavík á leik til góða á Þór.