Ægir Þór Steinarsson, landsliðsmaður í körfubolta og samherjar hans í spænska liðinu Gipuzkoa unnu 80:70 sigur á Iraurgi í spænsku B-deildinni í körfubolta í dag.
Leikurinn var partur af 15. umferð deildarinnar en var frestað og fór fram í hádeginu í dag. Ægir var stigahæsti maður Gipuzkoa í leiknum ásamt Benjamin David Simons, en báðir skoruðu þeir 18 stig. Ægir gaf einnig fimm stoðsendingar og tók fjögur fráköst í leiknum.
Eftir 20 leiki er Gipuzkoa í þriðja sæti deildarinnar með 31 stig, fimm stigum á eftir toppliði Granada. Efsta liðið fer beint upp í efstu deild en liðin í öðru til níunda sæti fara í umspil. Gipuzkoa er því á góðri leið með að næla sér í heimavallarrétt í umspilinu hið minnsta.