Fráköstin urðu Fjölni að falli

Aliyah Collier átti stórleik.
Aliyah Collier átti stórleik. mbl.is/Óttar Geirsson

Þrír leikmenn Njarðvíkur gerðu tvöfalda tvennu í 82:55 sigri á Fjölni í toppslag Subway-deildar kvenna í körfubolta í dag. Njarðvík vann frákastabaráttuna 74:40.

Njarðvíkingar settu tóninn strax í fyrsta leikhluta en staðan eftir hann var 25:9 heimakonum í vil. Þá forystu létu Suðurnesjakonur aldrei af hendi og sigldu öruggum 27 stiga sigri í hús.

Aliyah A'taeya Collier var stigahæst í liði Njarðvíkur en hún gerði sannkallaða tröllatvennu í leiknum, skoraði 30 stig og tók 23 fráköst. Þá skoraði Lavína Joao Gomes De Silva 22 stig og tók 17 fráköst og Diane Diéné Oumou skoraði 10 stig og tók 13 fráköst.

Hjá Fjölni var Aliyah Daija Mazyck stigahæst en hún skoraði 24 stig og tók 9 fráköst. Sanja Orozovic kom næst með 13 stig og 8 fráköst.

Njarðvík lyftir sér með sigrinum upp að hlið Vals í toppsæti deildarinnar en bæði lið eru með 22 stig. Fjölnir er áfram í þriðja sætinu með tveimur stigum minna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka