Minnesota Timberwolves vann 129:120 sigur á Indiana Pacers í bandarísku NBA-deildinni í körfubolta í kvöld. Leikurinn fór fram í Indianapolis og var spennandi fram á síðustu mínúturnar en að lokum var það Minnesota sem krækti í sigurinn.
Indiana leiddi 37:33 eftir fyrsta leikhluta en Minnesota svaraði með því að vinna þann næsta með 16 stiga mun. Staðan í hálfleik var 74:62 Minnesota í vil en Indiana vann þriðja leikhlutann með átta stigum og minnkaði þá muninn í fjögur stig. Minnesota var skrefi á undan í fjórða leikhlutanum en átti í erfiðleikum með að hrista lið Indiana af sér. Að lokum vann Minnesota þó níu stiga sigur.
Í liði Indiana voru þeir Oshae Brissett of Tyrese Haliburton stigahæstir með 22 stig hvor. Að auki tók Brissett 13 fráköst og Haliburton gaf 16 stoðsendingar. Næstur kom reynsluboltinn Lance Stephenson með 21 stig.
Hjá Minnesota var Anthony Edwards stigahæstur með 37 stig en D'Angelo Russell kom næstur með 23.
Indiana er í 13. sæti af 15 í austurdeildinni með 19 sigra eftir 58 leiki en Minnesota er í sjöunda sæti vesturdeildarinnar með 30 sigra eftir 57 leiki.