Hin búlgarska Iva Georgieva hefur yfirgefið körfuknattleikslið Breiðabliks eftir ásakanir um fjársvik.
Það er visir.is sem greinir frá. Iva er sökuð um að hafa selt fólki, innan sem utan félagsins vörur án þess að afhenda þá, þrátt fyrir að greiðsla hafi verið framkvæmd. Vörurnar sem um ræðir voru t.d. flugmiðar, líkamsræktartæki og Playstation-leikjatölvur.
Heimir Snær Jónsson, stjórnarmaður körfuknattleiksdeildar Breiðabliks, staðfesti í samtali við Vísi að málið væri til skoðunnar innan félagsins og hafi fyrst komið upp um miðjan janúar.
Ívar Ásgrímsson, þjálfari liðsins, staðfesti hins vegar við Vísi að Iva hefði yfirgefið félagið. Sagði hann m.a.:
„Ég hef á mínum rúmlega 35 ára ferli aldrei upplifað eitthvað svona áður. Við vonumst bara til þess að vörurnar skili sér á endanum þrátt fyrir að þetta hafi nú þegar tekið upp undir fjóra mánuði.“
Iva hefur leikið 11 leiki fyrir Breiðablik á tímabilinu, skorað í þeim 12,1 stig að meðaltali og tekið 6,3 fráköst.