DeRozan bætti félagsmet Michaels Jordan

DeMar DeRozan hefur átt mjög gott tímabil með Chicago Bulls …
DeMar DeRozan hefur átt mjög gott tímabil með Chicago Bulls og er með rétt tæp 28 stig að meðaltali. AFP

DeMar DeRozan þakkaði San Antonio Spurs fyrir að láta sig fara til Chicago Bulls í ágúst með því að skora 40 stig þegar liðin mættust í NBA-deildinni í nótt. 

Chicago Bulls hefur gengið mjög vel í vetur og er það meðal annars góðri frammistöðu DeRozan að þakka sem var hjá San Antonio í þrjú ár en þar áður hjá Toronto Raptors. DeRozan skoraði ekki nema tvö stig í fyrsta leikhlutanum en það breytti engu því hann náði samt að skora 40 stig í sigri Chicago 120:109. 

Var þetta sjötti leikurinn í röð þar sem DeRozan tekst að skora 35 stig eða meira og þar með bætti hann félagsmet Michaels Jordan sem náði fimm slíkum leikjum í röð í NBA. 

Chicago Bulls er með næstbesta árangurinn í Austurdeildinni á tímabilinu en liðið hefur unnið 37 leiki en tapað 21. Miami Heat er efst í Austurdeildinni með örlítið betri árangur. 

Framundan er barátta um sæti í úrslitakeppninni en vel mönnuð lið eins og Brooklyn Nets og Atlanta Hawks eru í þeirri baráttu í 8. og 10. sæti sem dæmi. 

Úrslit: 

New York - Oklahoma 123:127
Brooklyn - Sacramento 109:85
New Orleans - Toronto 120:90
Chicago - San Antonio 120:109
Milwaukee - Portland 107:122
Utah - Houston 135:101
Denver - Orlando 121:111
LA Clippers - Golden State 119:104
Washington - Detroit 103:94

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert