DeMar DeRozan þakkaði San Antonio Spurs fyrir að láta sig fara til Chicago Bulls í ágúst með því að skora 40 stig þegar liðin mættust í NBA-deildinni í nótt.
Chicago Bulls hefur gengið mjög vel í vetur og er það meðal annars góðri frammistöðu DeRozan að þakka sem var hjá San Antonio í þrjú ár en þar áður hjá Toronto Raptors. DeRozan skoraði ekki nema tvö stig í fyrsta leikhlutanum en það breytti engu því hann náði samt að skora 40 stig í sigri Chicago 120:109.
Var þetta sjötti leikurinn í röð þar sem DeRozan tekst að skora 35 stig eða meira og þar með bætti hann félagsmet Michaels Jordan sem náði fimm slíkum leikjum í röð í NBA.
Chicago Bulls er með næstbesta árangurinn í Austurdeildinni á tímabilinu en liðið hefur unnið 37 leiki en tapað 21. Miami Heat er efst í Austurdeildinni með örlítið betri árangur.
Framundan er barátta um sæti í úrslitakeppninni en vel mönnuð lið eins og Brooklyn Nets og Atlanta Hawks eru í þeirri baráttu í 8. og 10. sæti sem dæmi.
Úrslit:
New York - Oklahoma 123:127
Brooklyn - Sacramento 109:85
New Orleans - Toronto 120:90
Chicago - San Antonio 120:109
Milwaukee - Portland 107:122
Utah - Houston 135:101
Denver - Orlando 121:111
LA Clippers - Golden State 119:104
Washington - Detroit 103:94