Valencia féll í kvöld naumlega úr keppni í 8-liða úrslitum spænsku bikarkeppninnar í körfuknattleik, Copa del Rey.
Átta efstu liðin í deildinni fá keppnisrétt í Copa del Rey og er bikarkeppnin leikin í Granada á nokkrum dögum.
Valencia tapaði í kvöld fyrir Murcia 83:86 í skrautlegum leik í 8-liða úrslitum og bikardraumurinn er því úti hjá Valencia.
Martin Hermannsson skoraði 10 stig fyrir Valencia en gaf auk þess þrjár stoðsendingar á liðsfélagana og tók fimm fráköst.
Leikurinn var skrautlegur því Murcia hafði átján stiga forskot að loknum fyrri hálfleik. Hvað gera bændur þegar þeir eru átján stigum undir í hléi? Jú skora fyrstu nítján stigin í síðari hálfleik. Það gerðu leikmenn Valencia alla vega og var Martin drjúgur á þeim kafla. Þriðji leikhluti fór 31:9 fyrir Valencia en af einhverjum ástæðum tókst liðinu ekki að láta kné fylgja kviði. Murcia skoraði sex stigum meira í síðasta leikhlutanum og er komið í undanúrslit.