Íslendingarnir stigahæstir í Hollandi

Þórir Guðmundur Þorbjarnarson er að gera góða hluti í Hollandi.
Þórir Guðmundur Þorbjarnarson er að gera góða hluti í Hollandi. mbl.is/Árni Sæberg

Þórir Guðmundur Þorbjarnarson og Snorri Vignisson voru stigahæstir í sínum liðum er þau áttu ólíku gengi að fagna í lokaumferðinni í fyrri hluta efstu deildar Hollands og Belgíu, BNXT-deildinni, í körfubolta í dag.

Þórir skoraði 22 stig, tók átta fráköst og gaf fimm stoðsendingar fyrir Landstede Hammers er liðið vann 96:72-útisigur á Yoast United. Þórir og félagar hafa verið á fínu skriði og er liðið í fjórða sæti í hollenska hluta deildarinnar með 14 sigra í 20 leikjum og hefur tryggt sér sæti í tíu liða A-deild seinni hluta keppninnar en þar leika fimm efstu liðin frá hvoru landi.

Snorri skoraði 20 stig, tók fimm fráköst og gaf eina stoðsendingu fyrir Hague er liðið mátti þola 61:66-tap á útivelli gegn Weert. Hague er botnsæti deildarinnar með einn sigur í 20 leikjum og verður í B-deildinni í seinni hlutanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert