Elvar og félagar í A-deildina

Elvar Már Friðriksson gaf 13 stoðsendingar í dag.
Elvar Már Friðriksson gaf 13 stoðsendingar í dag. Ljósmynd/FIBA

Elvar Már Friðriksson átti góðan leik fyrir Antwerp Giants þegar liðið vann nokkuð öruggan sigur gegn Limburg í BNXT-deildinni, efstu deild Belgíu og Hollands, í körfuknattleik á heimavelli í dag.

Leiknum lauk með 94:82-sigri Antwerp Giants en Elvar Már skoraði 9 stig í leiknum, tók fimm fráköst og gaf 13 stoðsendingar á 31 mínútu.

Sameiginleg deild Belgíu og Hollands var stofnuð fyrir yfirstandandi keppnistímabil og endaði Antwerp Giants í fjórða sæti B-riðils keppninnar, eða Belgíuriðilsins, eftir deildarkeppnina.

Fimm efstu lið belgíska- og hollenska riðilsins fara áfram í A-deild þar sem átta lið berjast um sæti í úrslitakeppni deildarinnar en liðin sem höfnuðu í neðstu fimm sætunum fara í B-deild.

Efstu tvö liðin frá annarsvegar Belgíu og hins vegar Hollandi í A-deildinni tryggja sér sjálfkrafa keppnisrétt í undanúrslitum úrslitakeppninnar. Næstu þrjú liðin á eftir þeim fara í átta liða úrslitin ásamt efsta liði B-deildarinnar  þar sem liðin fjögur berjast um sæti í undanúrslitum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert