Þórsarar kasta inn hvíta handklæðinu

Reginald Keely er farinn frá Akureyri.
Reginald Keely er farinn frá Akureyri. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Karlalið Þórs frá Akureyri í körfuknattleik hefur rift samningi við þrjá erlenda leikmenn og hafa þeir yfirgefið félagið. Þetta staðfesti Hjálmar Pálsson, formaður körfuknattleiksdeildar Þórs, í samtali við mbl.is í dag.

Leikmennirnir sem um ræðir eru Norðmaðurinn Atle Ndiaye, Svisslendingurinn Eric Fongue og Bandaríkjamaðurinn Reginald Keely.

Ndiaye skoraði 15 stig og tók sex fráköst að meðaltali í 16 leikjum á leiktíðinni, Fongue skoraði 11 stig og tók þrjú fráköst að meðaltali í 16 leikjum og Keely skoraði 17 stig og tók 9 fráköst að meðal tali í 8 leikjum.

„Við erum búnir að segja upp samningum við Norðmanninn, Svisslendinginn og Bandaríkjamanninn og þeir fóru heim eftir Keflavíkurleikinn á dögunum,“ sagði Hjálmar í samtali við mbl.is.

„Við erum farnir að undirbúa okkur undir næsta tímabil og eins og taflan sýnir þá erum við í erfiðri stöðu.

„Við ætlum því aðeins að skipta um gír og erum farnir að undirbúa okkur undir 1. deildina þar sem ég reikna með því að við verðum með einn erlendan leikmann í okkar liði,“ bætti Hjálmar við.

Þórsarar eru í langneðsta sæti úrvalsdeildarinnar, Subway-deildarinnar, með 2 stig eftir 16 leiki, 12 stigum frá öruggu sæti. Þó liðið sé ekki fallið ennþá þá þurfa þeir að vinna þá leiki sem þeir eiga eftir, og treysta á hagstæð úrslit í öðrum leikjum, til þess að eiga von um að halda sæti sínu í deildinni.

Von er á fréttatilkynningu frá Þórsurum vegna málsins síðar í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert