Körfuknattleiksdeild Grindavíkur hefur sagt Daníel Guðna Guðmundssyni, þjálfara karlaliðs félagsins, upp störfum.
Þetta kemur fram á heimasíðu félagsins. Jóhann Þór Ólafsson mun stýra æfingum liðsins næstu daga þar til ákveðið verður hver verði með það út þetta tímabil.
Grindvíkingar eru í sjötta sæti úrvalsdeildarinnar þegar fimm umferðum er ólokið en þetta var þriðja tímabil Daníels með liðið. Grindvíkingar enduðu í áttunda sætinu 2019-20 en þá var úrslitakeppnin blásin af, og þeir enduðu í sjötta sæti í fyrra og voru slegnir út í átta liða úrslitum.
„Þetta var mjög erfið ákvörðun og síður en svo léttvæg þar sem við kunnum einstaklega vel við Daníel. Það var einhugur hjá stjórn að gera breytingu á þessum tímapunkti," segir Ingibergur Þór Jónasson formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur á heimasíðu félagsins.